Að minnsta kosti þrír létu lífið þegar fimm metra há flóðbylgja skall á Salómonseyjum í Kyrrahafi í kjölfar jarðskjálfta, sem varð á hafsbotni. Óstaðfestar fréttir herma að allt að 9 manna sé saknað. Að sögn japönsku jarðfræðistofnunarinnar í Tókýó mældist jarðskjálftinn 8 stig á Richter. Var gefin út flóðbylgjuviðvörun víðar á Kyrrahafssvæðinu í kjölfar skjálftans.
Talsmaður almannavarna Salómonseyja sagði við ástralska útvarpið, að flóðbylgjan hefði fært tvö þorp í kaf á vesturhluta eyjanna. Fréttir eru enn óljósar.
Jarðskjálftinn varð klukkan 20:40 að íslenskum tíma um 350 km vest-norðvestur af Honiara, höfuðborg Salómonseyja. Eftirskjálfti, sem mældist 6,7 stig, varð um átta mínútum síðar.
Flóðbylgjuviðvörun var gefin á Salómonseyjum, Ástralíu, Indónesíu, Papúa Nýju Gíneu, Vanuatu, Náru, Chuuk, Nýju Kaledóníu og fleiri eyjum. Þá er viðbúnaðarástand í Japan.
Salómonseyjar eru 2575 km austur af Ástralíu. Þar býr um hálf milljón manna á um tug eyja. Eyjarnar eru á svonefndum eldhring þar sem meginlandsflekar mætast og eldgos og jarðskjálftar eru tíð.