Segir Frakka vera að missa þolinmæðina vegna innflytjenda

Nicolas Sarkozy á blaðamannafundi í dag.
Nicolas Sarkozy á blaðamannafundi í dag. Reuters

Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi í Frakklandi, sagði í dag að Frakkar séu að missa þolinmæðina vegna óhefts straums innflytjenda til landsins. Miklar umræður hafa verið um innflytjendamál að undanförnu og þær mögnuðust í síðustu viku eftir að óeirðir brutust út í París þegar karlmaður frá Kongó var handtekinn.

„Hvað reitir Frakka til reiði?" sagði Sarkozy á blaðamannafundi í dag. „Frakkar eru reiðir yfir deilunni um þjóðerni, óheftum innflutningi fólks og ástandi félagsmála í frönskum borgum."

Á sunnudag sakaði Sarkozy, sem sjálfur er sonur ungversks innflytjanda í Frakklandi, Ségolène Royal, helsta keppinaut sinn, um móðursýki vegna viðbragða hennar við ummælum hans um innflytjendur og þjóðerni. Royal svaraði með því að kalla ummæli Sarkozys, fyrirlitleg og auðmýkjandi. „Þýðir þetta, að ef Sarkozy yrði kjörinn á morgun myndi hann byrja að móðga aðra þjóðarleiðtoga, sem kunna að vera honum ósammála?" spurði hún.

Átökin sem brutust út milli ungmenna og lögreglu við Gare du Nord lestarstöðina í París í síðustu viku minnti marga á óeirðirnar, sem brutust út í frönskum borgum árið 2005 milli ungmenna af arabískum og afrískum uppruna og lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert