Ummæli Olmerts um hugsanlegar friðarviðræður harðlega gagnrýnd

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur sætt harðri gagnrýni bæði heima fyrir og erlendis frá því hann lýsti yfir vilja til viðræðna við leiðtoga Arabaríkjanna um hugmyndir þeirra að friðarsamkomulagi Ísraela og nágranna þeirra. Stjórnarandstæðingar í Ísrael, fulltrúar Palestínumanna og Sádi-Araba hafa brugðist hart við ummælum hans.

Mustafa al-Barghuti, innanríkisráðherra heimastjórnar Palestínumanna, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann segir ummæli Olmerts vera tilraun til að komast hjá því að taka á deilum Ísraela og Palestínumanna. „Hann leggur til að samskiptum Ísraela við Arabaþjóðirnar verði komið í eðlilegt horf án þess að lausn verði fundin á vanda Palestínumanna sem myndi fela í sér að réttindi Palestínumanna verði virt og þeim leyft að stofna sjálfstætt ríki,” segir m.a. í yfirlýsingunni. „Hann er að reyna að breyta hugmyndum um alþjóðalega ráðstefnu í svæðisbundna ráðstefnu og heilstæðri lausn í takmarkaða og tímabundna lausn.”

Þá segir í sádi-arabíska dagblaðinu Al-Watan að yfirlýsingar Olmerts séu tilraun til að breyta hugmyndum Arababandalagsins sem hafi verið hugsaðar sem útfærð heildarlausn sem myndi stuðla að friði í heimshlutanum í hversdagsleg samningsdrög sem hægt sé að breyta og semja um.

Í Ísrael hefur Olmert hins vegar verið gagnrýndur fyrir innihaldslaust orðagjálfur: „Í stað þess að fela sig á bak við innihaldslaus orð, þarf Olmert að grípa um hornin á nautinu og í það minnsta semja við nágranna okkar. Það er hins vegar nokkuð ljóst að það eru litlar líkur á því að hann muni gera það,” segir Yossi Beilin, fulltrúi Meretz-flokksins. Þá hafa bæði harðlínumenn og friðarsinnar í Ísrael sakað Olmert um sjálfsblekkingu og innihaldslaust lýðskrum.

Olmert sagði m.a. eftir fund sinn með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í gærkvöldi, að hann byði öllum leiðtogum Arabaríkjanna, þeirra á meðal konungi Sádi-Arabíu, að eiga viðræður við leiðtoga Ísraela. „Efni konungur Sádi-Arabíu til ráðstefnu Arabaríkjanna og bjóði mér og fulltrúa yfirvalda á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum til hennar til að kynna okkur hugmyndir Sádi-Araba, munum við mæta til að heyra þær og til að kynna hugmyndir okkar,” sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert