Lögregla í Fredrikstad í Noregi segir, að búið sé að upplýsa morð, sem framið var í bænum árið 1978. Þá var 61 árs gömul kona stungin til bana en til þessa hefur það verið ráðgáta hver varð henni að bana og morðvopnið fannst aldrei. Lögreglan segir, að játning liggi fyrir en nánari upplýsingar verða ekki gefnar fyrr en á blaðamannafundi síðar í dag.
Árið 1983 var karlmaður í Fredikstad ákærður fyrir morðið en síðar féll lögreglan frá ákærunni. Málið hefur síðan verið tekið upp nokkrum sinnum aftur og árið 2002 fékk lögreglan í bænum styrk frá norsku sakamálalögreglunni í hálft ár til að fara í gegnum málsgögnin og gera DNA-rannsóknir. Allt kom fyrir ekki.
Að sögn norskra blaða er fyrningarfrestur í morðmálum 25 ár og því fyrntist sökin í morðmálinu árið 2003.