Þúsundir starfsmanna Airbus flugvélaframleiðandans í Toulouse fóru í verkfall í dag, til að mótmæla áætlun um breytingar á rekstri fyrirtækisins, sem kölluð er Power8, en samkvæmt henni á að segja upp 10.000 starfsmönnum fyrirtækisins víðs vegar um Evrópu á næstu fjórum árum.
Um 3.500 starfsmenn komu saman við samsetningarskemmu Airbus í dag og hrópuðu slagorð gegn áætluninni. Þaðan var förinni heitið að Toulouse-Blagnac flugvellinum, en starfsmenn krefjast þess einnig að haldið verði áfram að framleiða A320 farþegavélina í Toulouse.
Samkvæmt Power8 á að framleiða þær vélar í Hamborg í Þýskalandi, í stað þess að framleiðslan fari fram á tveim stöðum eins og nú er. Stéttarfélög starfsmanna skipulögðu mótmælin í dag. Með niðurskurðinum á að draga úr útgjöldum Airbus um fimm milljarða evra fyrir árið 2010.