Elísabet Englandsdrottning hefur ráðið til sín hóp sérfræðinga sem munu í fyrsta skipti í sögum konungdæmisins fara yfir útblástur gróðurhúsalofttegunda sem tengjast hinum þremur opinberu dvalarstöðum hennar. Tilgangurinn mun vera sá að kanna hvar og hvernig hægt sé að minnka útblástur sem tengist opinberum störfum drottningarinnar.
Könnunin nær til Buckingham-hallar í Lundúnum, Windsor kastalans vestur af höfuðborginni þar sem drottningin eyðir flestum helgum og Holyroodhouse-höllin í Edinborg, sem er opinbert heimili hennar í Skotlandi.
Aðrir dvalarstaðir drottningarinnar, svo sem Balmoral setrið á hálendi Skotlands og Sandringham í austurhluta Englands eru í einkaeigu drottningarinnar og nær endurskoðunin ekki til þeirra.
Samkvæmt talskonu bresku hirðarinnar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða og breytinga með tilliti til umhverfismála undanfarin tíu ár, en aldrei hefur verið farið skipulega yfir málefni aðsetra drottningarinnar. Sonur hennar, Karl Bretaprins hefur sýnt mikinn áhuga á umhverfismálum, en hefur verið gagnrýndur nokkuð að undanförnu vegna þess hve mikið hann ferðast með flugvélum.