Viktor Janúkóvítsj, forsætisráðherra Úkraínu, hefur beðið austurrísk stjórnvöld að reyna að miðla málum í deilu hans við Viktor Jútsjénkó, forseta Úkraínu. Forsætisráðherrann fullyrðir að forsetinn hafi ekki haft lög landsins á bak við sig þegar hann fyrirskipaði, að þing landsins skyldi rofið og kosningar fari fram í maílok.
Jútsjénkó hefur hins vegar harðneitað að ógilda tilskipunina og segir að þeir sem ekki fari eftir henni gætu átt von á ákæru.
Þingið hefur haldið áfram að starfa þrátt fyrir tilskipunina og Janúkóvítsj hefur sagt ríkisstjórn sinni, að undirbúa ekki kosningar fyrr en stjórnlagadómstóll hefur kveðið upp úrskurð í málinu.
Þúsundir stuðningsmanna Janúkóvítsj hafa slegið upp tjöldum á götum höfuðborgarinnar, Kiev. Talið er að um 20 þúsund manns séu samankomnir í miðborginni og einnig eru útifundir í Donetsk í austurhluta landsins þar sem stuðningur er mestur við forsætisráðherrann. Forsetinn nýtur hins vegar mests stuðnings í vesturhluta landsins þar sem íbúar eru hallir undir vesturlönd.