15 breskir sjóliðar, sem handteknir voru á Persaflóa 23. mars og fluttir til Írans, eru á leið heim til Bretlands með áætlunarvél frá British Airways frá Teheran áleiðis til Heathrow-flugvallar. Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, tilkynnti í gær að sjóliðunum yrði sleppt og það væri gjöf til Breta. Nokkrir af sjóliðunum ræddu við íranska ríkissjónvarpið áður en þeir fóru frá Íran og þökkuðu fyrir að hafa fengið frelsi.
Sjóliðunum var ekið í embættisbílum á flugvöllinn í Teheran í nótt eftir að hafa verið 13 daga í haldi í Íran.
Áður en þeir sjóliðarnir stigu upp í flugvél sagði einn þeirra, Felix Carman, höfuðsmaður, í sjónvarpsviðtali: „Ég vil segja við írönsku þjóðina, að ég skil vel að hún hafi móðgast yfir því að við virtumst fara inn í landhelgi hennar. Ég vil lýsa því yfir, að við höfðum ekkert illt í hyggju og ég vona að þessi reynsla muni nýtast til að byggja upp samskipti þjóða okkar."
Faye Turney, eina konan í hópnum, sagði: „Við biðjumst afsökunar á gerðum okkar, en við erum þakklát fyrir að þið voruð nægilega góðhjörtuð til að sleppa okkur."
Bæði sögðust þau hafa fengið góða meðferð í Íran.
John Bolton, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að Ahmadinejad væri ótvíræður sigurvegari í þessu máli og hefði jafnframt styrkt stöðu sína í kjarnorkudeilu vesturveldanna og Írans.