Sky fréttastofan sagði frá því í dag að verkefni sjóliðanna 15, sem handteknir voru af Írönum fyrir að vera í íranskri lögsögu, að sögn Írana, hafi verið að afla upplýsinga um Íran. Varnarmálaráðherra Bretlands, Des Browne, staðfesti þetta í samtali við Sky.
Einn sjóliðanna sem var tekinn höndum sagði í viðtali við Sky, fimm dögum fyrir handtökuna, að aðalmarkmið ferðarinnar væri að athuga hvort verið væri að smygla vopnum til Íraks. Rætt sé við áhafnir skipa, komist að því hvort einhver vandræði séu um borð, þær látnar vita að breski sjóherinn geti verndað þær. Reynt sé að stöðva sjórán og hryðjuverkastarfsemi.
Fyrrum ríkiserindreki Írana, dr. Mehrdad Khonsari, sagði í samtali við Sky í framhaldi af þessu að Íranar hefðu nýtt sér þetta til að réttlæta handtökuna, hefðu þeir vitað af þessu, og dregið sjóliðana fyrir dóm.