Blaðamenn án landamæra, réttindasamtök fjölmiðlamanna, lýstu í dag áhyggjum sínum af ákvörðun Taílendinga um að loka á aðgang að vefsíðunni YouTube vegna myndskeiða þar sem konungur landsins er gagnrýndur. Lokað hefur verið á aðgang að YouTube síðan á miðvikudag þar sem aðstandendur síðunnar hafa ekki fjarlægt myndskeið sem taílensk stjórnvöld segja særa ímynd kóngsins.
Bhumibol Adulyadej er nánast í guðatölu í Taílandi og er hart tekið á allri gagnrýni á konunginn og háði. Síðan vefsíðunni var lokað hafa þó fleiri álíka myndskeið sprottið upp á þar sem gert er grín að konunginum og afstaða taílenskra stjórnvalda gagnrýnd.
Í yfirlýsingu Blaðamanna án landamæra segir að st´jornvöld í Taílandi ritskoði ekki einungis það sem teljist klám og þá sem móðgað hafa konungsveldið, heldur einnig vefi þar sem valdaránið sem framið var í landinu sl. september er gagnrýnt, og vefi sem tengjast hópum aðskilnaðarsinna í suðurhluta landsins.