A.m.k. nítján Filippseyingar tóku þátt í árlegri krossfestingarathöfn í þorpunum Cutud og Santa Lucia í norðurhluta Filippseyja, líkt og hefð er fyrir á föstudaginn langa til að minnast pínu Jesú Krists.
Í báðum þorpinum bar maður sem fer með hlutverk Krists viðarkross upp á nærliggjandi hæð, umkringdur mönnum sem klæddir voru sem rómverskir hermenn.
Að því loknu skiptust þátttakendur á að láta negla sig á krossa, þar sem naglar, sem sótthreinsaðir hafa verið með alkóhóli, eru reknir í gegn um hendur þeirra.
Einn þeirra sem lét krossfesta sig var maður að nafni Viktor, sem tók í dag þátt í athöfninni í sautjánda sinn, hann segist taka þátt í henni svo móðir hans læknist af sjúkdómi. ,,Eftir aðeins tvö ár fæ ég hlutverk Krists”, sagði Viktor og átti við að hann fengi þá hið eftirsótta hlutverk að fá að bera krossinn.
Hópur manna fylgir göngunni með krossinn og tekur þátt í athöfninni með öðrum hætti, þeir hýða sigtil blóðs með svipum.
Kirkjan styður ekki athöfnina, sem hefur verið árlegur viðburður um áratuga skeið, og hafa kirkjunnar menn gagnrýnt hana með þeim orðum að hún sé að verða að sjónarspili fyrir ferðamenn. Útlendingum er í ár bannað að taka þátt í henni eftir að Breti sem ætlaði að láta krossfesta sig á síðasta ári guggnaði á síðustu stundu.