Samkomulag náðist um loftslagsskýrslu

Rajendra Pachauri, forseti fundarins í Brussel.
Rajendra Pachauri, forseti fundarins í Brussel. Reuters

Samkomulag náðist í morgun á fundi vísindamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna á fundi í Brussel um skýrslu þar sem lýst er afleiðingu af hlýnun andrúmsloftsins. Rajendra Pachauri, forseti fundarins, tilkynnti þetta á blaðamannafundi eftir fund, sem stóð í alla nótt.

Vísindamenn frá um 100 ríkjum tóku þátt í ráðstefnunni. Nokkrir vísindamenn andmæltu breytingum, sem gerðar voru á lokaskjalinu en féllust að lokum á málamiðlun. Sumir vísindamannanna sögðust þó aldrei ætla aftur að taka þátt í vinnu af þessu tagi.

Kínverjar, Rússar og Sádi-Arabar höfðu gert flestar athugasemdir við uppkast skýrslunnar, sem lá fyrir ráðstefnunni og einnig vildu Bandaríkjamenn umorða suma kafla hennar. Nokkrir vísindamenn hreyfðu andmælum þegar Kínverjar reyndu að fjarlægja setningu þar sem segir að ljóst þyki að loftslagsbreytingar hefðu þegar áhrif á mörg vistkerfi á öllum meginlöndum og í sumum úthöfum. Kínverjar vildu draga úr þessari fullyrðingu.

En einnig var bætt við skýrsluna á ráðstefnunni, m.a. varnaðarorðum um að sumar Afríkuþjóðir yrðu að verja 5-10% af vergri landsframleiðslu sinni til að bregðast við loftslagsbreytingum.

Skýrslan er sú svartasta, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér um loftslagsbreytingar. Þar kemur fram, að hlýnun andrúmsloftsins hefur þegar haft mikil áhrif á umhverfið. Þá telja vísindamennirnir, að loftslagsbreytingarnar hafi þegar haft áhrif á þjóðfélög. Þar er því spáð, að skortur á drykkjarvatni geti haft áhrif á milljarða manna. Þá gætu útrýmingar dýrategunda og hækkun yfirborðs sjávar haldið áfram næstu aldir.

Þá segir í skýrslunni að losun kolefnis út í andrúmsloftið, aðallega frá brennslu kola og olíu, sé aðalástæða hlýnunar andrúmsloftsins. Þá kemur fram að loftslagsbreytingar geti valdið uppskerubresti í Afríku, þiðnun jökla á Himalayafjöllum og hitabylgjum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Skýrslan verður send til þjóðarleiðtoga áður en leiðtogafundur helstu átta iðnríkja heims verður haldinn í júní Þetta verður önnur skýrslan af þremur, sem Ráðstefnan um loftslagsbreytingar sendir frá sér á þessu ári. Sú fyrsta, sem fjallaði um rannsóknir á umhverfinu, kom út í febrúar en niðurstaða hennar var m.a. sú, að 90% líkur séu á því að hlýnun andrúmsloftsins, sem orðið hefur vart frá miðri síðustu öld, stafi aðallega af mannavöldum.

Þriðja skýrslan, sem á að koma út í maí, mun fjalla um leiðir til að draga úr magni gróðurhúsalofttegunda sem leiðir til hækkandi hitastigs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert