Sjóliðarnir fimmtán sem voru í haldi Írana í tæpar tvær vikur segjast hafa fengið illa meðferð hjá Írönum, þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá sjóliðunum, sem segjast hafa þurft að sæta harðræði, handahófskenndum yfirheyrslum auk þess sem þeir hafi verið bundnir, bundið hafi verið fyrir augun á þeim og þeir hafðir í einangrun. Þá ítreka sjóliðarnir að þeir hafi verið í íraskri lögsögu þegar Íranar handsömuðu þá.
Sjóliðarnir segjast hafa dvalið um nætur í steinklefum, sofið á teppahrúgum og hafi verið í einangrun þar til síðustu næturnar. Þeim var þar að auki stillt upp við vegg meðan vopn voru hlaðin, og látin óttast hið versta.
Yfirmenn sjóhersins breska hafa áður varið afstöðu sjóliðanna, sem gagnrýndir hafa verið fyrir að láta undan Írönum of auðveldlega. Jonathon Band, aðmíráll í breska sjóhernum, segir að áhöfnin hafi brugðist afar vel við erfiðum aðstæðum, en að engu að síður verði farið nákvæmlega yfir atburðarrásina.
Áhöfnin kom fram í írönsku sjónvarpi þar sem hún viðurkenndi að hafa verið á írönsku yfirráðasvæði þegar hún var handsömuð.