Tveggja farþega af sokknu farþegaskipi saknað

Franskra feðgina, sem voru farþegar á grísku skemmtiferðaskipi sem sökk á Eyjahafi í nótt, er saknað. Talið var að allir um borð, nærri 1600 að tölu, hefðu verið fluttir í land eftir að skipið rakst á rif og leki kom að því, en þegar farþegarnir fóru um borð í annað skip sem kom til að sækja þá kom í ljós að feðginin voru ekki þar á meðal. Skipið sökk um klukkan 4 í nótt að íslenskum tíma.

Verið er að fara aftur yfir farþegalista og leita að 45 ára karlmanni og 16 ára dóttur hans. Fanny Palli Petralia, ferðamálaráðherra Grikklands, segist hafa rætt við eiginkonu mannsins, sem sagði, að klefi þeirra hefði fyllst af sjó þegar skipið rakst á rifið og henni hefði með naumindum tekist að forða sér. Hún var ekki viss um hvort eiginmaður hennar og dóttir hefðu komist út enda hefði mikil ringulreið ríkt. Annað barn hennar var uppi á þilfari þegar skipið strandaði og komst í land.

Skipið var um 50 metra frá höfninni á grísku eyjunni Santorini þegar það lenti á grynningum. Íbúar eyjarinnar tóku m.a. þátt í að flytja farþegana og áhöfn skipsins til lands á fiskibátum og öðrum bátum. Farþegarnir voru flestir bandarískir en einnig voru Kanadamenn og Spánverjar um borð.

Skipið, sem nefndist Sea Diamond, var í eigu Louis Cruise Lines sem er með höfuðstöðvar á Kýpur.

Skemmtiferaskipið Sea Diamond
Skemmtiferaskipið Sea Diamond Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert