Bandarískur aðstoðarráðherra fer til Sómalíu til viðræðna við ráðamenn

Jendayi Frazer, sem er aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og hefur málefni Afríku á sinni könnu, kom til Sómalíu í dag til viðræðna við forseta og forsætisráðherra landsins. Ekki hafði verið tilkynnt um að Frazer væri væntanlegur, en hann er hæst setti bandaríski embættismaðurinn sem komið hefur til Sómalíu síðan 1994.

Bandaríska sendiráðið í Nairobi greindi frá þessu í dag.

Stjórnarherinn í Sómalíu berst ásamt eþíópískum liðsauka við uppreisnarmenn í höfuðborginni, Mogadishu. Bandaríkjamenn studdu afskipti Eþíópíumanna af átöknunum í Sómalíu fyrir þrem mánuðum, er miðuðu að því að hrekja íslamska uppreisnarmenn frá höfuðborginni, en átök hafa blossað þar upp að nýju.

Stjórnleysi hefur verið í Sómalíu síðan einræðisherrann Mohamed Siad Barre var hrakinn frá völdum 1991, og stríðsherrar og ættbálkar borist á banaspjót. Bráðabirgðaríkisstjórn sem skipuð var 2004 hefur ekki náð að koma á lögum og reglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert