Stóri jarðskjálftinn sem varð tugum manna að bana á Salómonseyjaklasanum í Suður-Kyrrahafi í byrjun vikunnar hefur lyft afskekktri eyju í klasanum þannig að strönd hennar er nú tugum metra utar en áður og kóralrif umhverfis hana eru nú yfir sjávarmáli, að því er fréttamenn AFP greina frá.
Skjálftinn mældist átta stig, en honum olli færsla á jarðskorpuflekum, og setti hann af stað flóðbylgju er kostaði að minnsta kosti 34 lífið. Eyja Ranongga, sem er afskekkt í vesturhluta eyjaklasans, er gerbreytt eftir skjálftann, og standa kóralrif sem áður voru undir yfirborði sjávar nú upp úr og eru að deyja. Þessi rif voru vinsæl meðal kafara hvaðanæva úr heiminum.
Fréttamaður AFP, sem fór til Ranongga, hefur eftir heimamanni þar, að „mikill hávaði“ hafi fylgt skjálftanum, og að „vatnið fór og kom ekki aftur“. Ranongga er um 32 km löng eyja og um átta km breið. Þar eru mörg sjávarþorp, og óttast er að fiskimiðin í kring kunni að vera ónýt. Jarðskorpuhreyfingin sem olli skjálftanum virðist hafa ýtt strandlengju eyjarinnar út um allt að sjötíu metra þar sem mest er.