Segir CIA hafa yfirheyrt sig og pyntað

Íranskur sendimaður, sem rænt var í Írak fyrir tveimur mánuðum, sakar bandarísku leyniþjónustuna CIA um að hafa pyntað hann meðan hann var í haldi. Íranska sjónvarpið sagði frá þessu í dag, en sendimanninum var sleppt sl. þriðjudag.

Jalal Sharafi sagði að CIA hefði spurt sig um tengsl Írans við Írak og stuðning við ýmis samtök. „Þegar þeir heyrðu svar mitt, að Íran hefði aðeins opinber samskipti við írösku ríkisstjórnina og embættismenn hertu þeir á pyntingunum og pyntuðu mig með ýmsum hætti daga og nætur," hafði sjónvarpið eftir Sharafi.

AP fréttastofan hefur eftir leyniþjónustumanni, sem ekki vildi láta nafns síns getið, að CIA neitaði því að hafa átt nokkurn þátt í því að Sharafi var tekinn höndum eða leystur úr haldi. Þá sagði leyniþjónustumaðurinn, að CIA hvorki beitti né liði pyntingar.

Fimmtán breskir sjóliðar, sem leystir voru úr haldi í Íran í vikunni, sögðust í gær hafa sætt illri meðferð í varðhaldinu þar og verið beittir sálfræðilegum misþyrmingum.

Þegar Sharafi hvarf fullyrtu Íranar að íraskur herflokkur, sem er undir stjórn Bandaríkjahers, hefðu rænt honum. Nokkrir íraskir þingmenn úr röðum sjía-múslima tóku undir þessar ásakanir en bandarísk stjórnvöld vísuðu þeim á bug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert