Al-Jazeera birtir myndir af eftirlýstum samverkamanni Saddams

Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sýndi í dag myndbandsupptöku sem sögð var vera af Saifeddin Fulayh Hassan Taha al-Rawi, einum af fyrrverandi samverkamönnum Saddams Husseins sem enn hefur ekki náðst. Er al-Rawi þessi 14. á listanum sem Bandaríkjastjórn birti yfir eftirlýsta ráðamenn í Bagdad fyrir innrásina í Írak 2003.

Bandaríkjamenn hafa lagt eina milljón dala til höfuðs al-Rawi, sem var spaðagosinn í „spilastokknum“ með andlitsmyndum 55 eftirlýstra manna sem Bandaríkin dreifðu í upphafi innrásarinnar.

Á myndbandinu sakar al-Rawi Bandaríkjamenn um að hafa beitt nifteinda- og fosfórsprengjum er þeir gerðu árás á flugvöllinn í Bagdad áður en innrásin hófst. Sjónvarpsstöðin segir að meira af viðtali við al-Rawi verði sýnt síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert