Sendinefnd háttsettra bandarískra embættismanna kom til Norður-Kóreu í morgun. Fyrir nefndinni fer Bill Richardson, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og núverandi ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó.
Nefndin kom með bandarískri herflugvél, sem lenti á flugvellinum í Pyongyang í morgun. Erindi Bandaríkjamannanna er að sækja líkamsleifar bandarískra hermanna, sem féllu í Kóreustríðinu um miðja síðustu öld.
Ferðin er farin með vitund og vilja George W. Bush, Bandaríkjaforseta. AP fréttastofan hefur eftir Richardson, að hann ætli ekki að ræða um kjarnorkumál við Norður-Kóreumenn en tímasetning ferðarinnar sé þó mikilvæg og sýni fram á samkomulagsvilja Bandaríkjanna. Samkvæmt nýgerðu samkomulagi eiga Norður-Kóreumenn að slökkva á stærsta kjarnaofni sínum á laugardaginn.
Dagskrá heimsóknarinnar er nokkuð óljós en Richardson sagðist hafa óskað eftir fundum með æðstu stjórnendum Norður-Kóreu og að fá að skoða Yongbyon kjarnorkuverið, það eina sem nú er starfrækt í landinu. Áformað er að nefndin aki á miðvikudag frá Pyongyang til Suður-Kóreu, væntanlega með líkamsleifar bandarísku hermannanna.
Richardson, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, hefur fimm sinnum áður heimsótt Norður-Kóreu. Hann hefur oft heimsótt lönd, sem átt hafa stirð samskipti við Bandaríkin.