Leyfi bresku sjóliðanna til að þiggja greiðslu fyrir frásagnir gagnrýnt

Hér sjást þrír af bresku sjóliðunum í haldi Írana.
Hér sjást þrír af bresku sjóliðunum í haldi Írana. Reuters

Breska varnarmálaráðuneytið hefur sætt gagnrýni í dag fyrir að hafa heimilað fimmtán breskum sjóliðum, sem voru í haldi Írana í 13 daga, að þiggja greiðslur frá fjölmiðlum fyrir frásagnir af varðhaldinu. William Hague, talsmaður Íhaldsflokksins í utanríkismálum, sagði að ef hermönnum yrði framvegi heimilt að gera þetta myndi herinn setja ofan.

Varnarmálaráðuneytið hefur lýst því yfir að um sérstakar aðstæður sé að ræða, því að almenningur hefði gífurlegan áhuga á málinu. Þar af leiðandi hefði verið aflétt banni við því að hermenn selji frásagnir sínar fjölmiðlum.

Sum bresk blöð greiða fyrir spennandi frásagnir, og herma fregnir að sjóliðarnir 15 kunni að geta fengið alls um 250.000 pund, eða sem svarar um 33 milljónum króna, fyrir frásagnir sínar.

Hague sagði að heimildin sem sjóliðarnir hefðu fengið skapaði mikilvægt fordæmi, og myndu íhaldsmenn taka málið upp þegar þingið kæmi saman eftir páskaleyfi.

Menzies Campbell, leiðtogi Frjálslynda demókrataflokksins, spáði því að almenningur myndi verða ósáttur við ákvörðun varnarmálaráðuneytisins, vegna þess að í sömu viku og sjóliðarnir komu heim, heilir á húfi, féllu sex breskir hermenn í Írak.

Max Clifford, þekktasti umboðsmaður fræga fólksins í Bretlandi, sagði að sú ákvörðun að leyfa sjóliðunum að selja frásögnina væri „hreint áróðursbragð“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert