Breska varnarmálaráðuneytið bannar hermönnum að selja sögur sínar

Bresku sjóliðarnir 15 eru sagðir geta grætt samanlagt um 250.000 …
Bresku sjóliðarnir 15 eru sagðir geta grætt samanlagt um 250.000 pund fyrir að veita fjölmiðlum viðtöl varðandi reynslu sína í Íran. Reuters

Varnarmálaráðherra Bretlands hefur lagt bann við því að breskir hermenn selji fjölmiðlum frásagnir sínar. Þetta gerir ráðherrann eftir að ráðuneytið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að leyfa 15 breskum sjóliðum, sem voru í haldi Írana í síðasta mánuði, að þiggja greiðslur fyrir að veita viðtöl.

Des Browne sagði að breski sjóherinn hafi ekki komist að „viðunandi niðurstöðu“ með því að leyfa sjóliðunum 15, þ.e. 14 körlum og einni konu sem voru í haldi, að hagnast fjárhagslega á þeirri fjölmiðlaathygli sem málið hefur vakið. Browne viðurkenndi hinsvegar að það hafi verið afar erfitt að taka ákvörðun í þessu máli.

Deila spratt upp nú um helgina eftir að varnarmálaráðuneytið tók þá óvenjulegu ákvörðun að leyfa sjóliðunum að gera samninga við dagblöð og ljósvakamiðla um að veita viðtöl gegn greiðslum, sökum „óvenjulegra kringumstæðna“.

Það kom síðar í ljós að hin 26 ára gamla Faye Turney, sem varð einskonar andlit sjóliðanna út á við, hafi fengið, að því er frásagnir herma, 100.000 þúsund pund fyrir að veita bresku sjónvarpstöðinni ITV og breska dagblaðinu The Sun viðtöl.

Fram hefur komið í dagblöðum að hópurinn gæti saman grætt um 250.000 pund. Viðtalið við Turney verður sýnt á ITV síðar í dag.

Browne, sem tjáði sig nú í fyrsta sinn um málið, sagðist gera sér fulla grein fyrir upphaflegu ákvörðuninni. Hann sagði að þangað til að embættismennirnir séu búnir að móta með sér skýrar reglur hvað framtíðina varði þá muni enginn annar hermaður „fá leyfi til þess að ræða við fjölmiðla um reynslu þeirra og fá í staðinn peningagreiðslu fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert