Bandaríkin bregðast ókvæða við kjarnorkuyfirlýsingu Írana

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði í gær við hátíðlega athöfn …
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði í gær við hátíðlega athöfn í Natanz-kjarnorkuverinu að Íranar væru nú komnir í „kjarnorkufélag þjóðanna“. Reuters

Bandaríkin hafa gagnrýnt Írana fyrir að hafa tilkynnt að þeir geti nú framleitt kjarnorkueldsneyti í miklu magni. „Íran heldur áfram að ögra alþjóðasamfélaginu og einangra sig enn frekar með því að útvíkka kjarnorkuáætlun sína,“ sagði bandarískur embættismaður.

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði í gær að Íranar væru nú komnir í „kjarnorkufélag þjóðanna“, segir á vef BBC.

Íranar halda því fram að kjarnorkuáætlun sín sé í friðsömum tilgangi en Vesturveldin hafa áhyggjur af því að Íranar vilji framleiða kjarnorkusprengjur.

„Við höfum miklar áhyggjur af tilkynningu Írana að þeir hafi komist á „iðnaðarstig“ hvað varðar framleiðslu á kjarnorkueldsneyti,“ segir Gordon Johndroe, talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins.

Breskur embættismaður sagði að tilkynning Írana væri merki um „frekari brot á ályktunum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna.“

Evrópusambandið endurnýjaði jafnframt ákall sitt um að Íranar hætti að auðga úran, og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, hvatti Írana til þess að framfylgja ályktun öryggisráðs SÞ.

SÞ hefur samþykkt tvær ályktanir um að beita Írana refsiaðgerðum fyrir að neita að hætta við kjarnorkuáætlun sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert