Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna Alberto Gonzales var í dag stefnt fyrir þingnefnd vegna skjala sem tengja hann við uppsagnir saksóknara. Fulltrúadeild Bandaríkja þings og öldungadeildin rannsaka brottvísun átta saksóknara.
Ríkisstjórn George W. Bush hefur haldið því fram að uppsagnirnar hafi verið lögmætar þá telja gagnrýnendur að pólitískar hvatir hafi legið að baki þeim.
Gonzales hefur samkvæmt Reuters fréttastofunni hafnað kröfum um að hann segi af sér vegna þessa máls og mun koma fyrir þingnefndina í næstu viku. Einnig hefur þingnefndin kallað eftir skjölum frá skrifstofu hans.