Faye Turney, eina konan í hópi bresku sjóliðanna 15 sem Íranar handtóku á Persaflóa í mars, segir í viðtali við blaðið The Sun í dag, að Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sé grunnhygginn og að hún hafi sagt honum til syndanna fyrir að handtaka Bretana. Sjóliðunum var sleppt úr haldi í Íran fyrir páska eftir 13 daga fangavist.
Að sögn Turney voru sjóliðarnir leiddir fyrir forsetann skömmu eftir að hann tilkynnti að þeir yrðu látnir lausir. Hún var sú fyrsta, sem kynnt var fyrir Ahmadinejad að viðstöddum írönskum fréttamönnum.
„Hvernig hefur dóttir þín það?" segir hún að forsetinn hafi sagt gegnum túlk. „Ég hef ekki séð hana í 13 daga, þú manst eftir því?" svaraði hún á móti.
Ahmadinejad sagði: „Jú jú. En hefur þú ekki fengið að hringja í hana?"
„Aldeilis ekki," svaraði Turnay.
Hún segir, að forsetanum hafi nú orðið orða vant en tautað á endanum: „Jæja, ég óska þér alls góðs í framtíðinni."
„Ég hafði á tilfinningunni, að hann sæi eftir að hafa hitt okkur og væri að reyna að segja: Ekki erfa þetta við okkur," segir Turnay síðan. „Þetta sýndi hvernig hann er, grunnur. Það er óhætt að segja, að ég er ekki mikill aðdáandi hans."
The Sun segir, að frásögn Turnays skýri hvers vegna íranskar sjónvarpsstöðvar sýndu myndir af fundi forsetans og sjóliðanna án hljóðs.
Turney sagði í viðtali, sem birtist í gær, að hún hafi óttast að sér yrði nauðgað eða hún yrði tekin af lífi í Íran. Sér hefði verið haldið í einangrun og hótað að hún fengi aldrei að sjá dóttur sína aftur.