Ummæli Sarkozys um barnaníðinga valda uppnámi

Nicolas Sarkozy áritar boli í bókabúð um helgina.
Nicolas Sarkozy áritar boli í bókabúð um helgina. Reuters

Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi í Frakklandi, varði í dag ummæli sem hann viðhafði í tímaritsviðtali í gær, þar sem hann sagðist telja að barnaníðingar hefðu hlotið þau örlög þegar við fæðingu. Aðrir frambjóðendur í forsetakosningunum hafa gagnrýnt ummælin heimspekingar og forsvarsmenn kaþólsku kirkjunnar hafa gagnrýnt Sarkozy fyrir að halda því fram að fólk geti ekki breyst.

Ummælin féllu í viðtali við heimspekitímaritið Philosophie Magazine. Sarkozy sagðist í dag hafa varpað fram spurningu til umræðu en hefði engin svör.

„Hve mikill hluti af þessu er meðfæddur og hve mikill áunninn? Við skulum að minnsta kosti ræða það," sagði hann við France-2 sjónvarpsstöðina í dag.

Í tímaritinu var haft eftir Sarkozy: „Ég held persónulega, að maður fæðist sem barnaníðingur og það er vandamál að við vitum ekki hvernig á að meðhöndla slíkan sjúkdóm. Um 1200-1300 ungmenni fremja sjálfmorð í Frakklandi árlega og það er ekki vegna þess að foreldrar þeirra hugsa illa um þau. Það er vegna þess, að þau eru erfðafræðilega veikburða... Kringumstæðurnar skipta ekki öllu máli en hinn meðfæddi þáttur vegur afar þungt."

Samkvæmt skoðanakönnunum mun Sarkozy fá flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna, sem verður 22. apríl. Sègoléne Royal kemur næst og síðan Francois Bayrou.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert