Ekki nógu franskur fyrir forsetahöllina

Jean-Marie Le Pen telur að Nicolas Sarkozy sé ekki nógu …
Jean-Marie Le Pen telur að Nicolas Sarkozy sé ekki nógu franskur. Reuters

Jean-Marie Le Pen hóf að vega að uppruna Nicolas Sarkozy, frambjóðenda hægri manna í UMP flokknum, á sunnudag þar sem hann vísaði í frambjóðandann sem væri komin af innflytjendum og átti þar við Sarkozy.

Le Pen hjó svo í sömu knérum í dag þegar hann lýsti því yfir í viðtali að honum fyndist Sarkozy alls ekki nógu franskur til að gegna stöðu forseta Frakklands og að sjálfur væri hann mun nær því að vera holdgervingur fransks almennings en Sarkozy.

Sarkozy svaraði árásum Le Pen á fundi í borginni Tours í dag þar sem hann sagði það vera laukrétt að hann væri afkomandi innflytjenda en lýsti svo yfir sterkum tilfinningum fjölskyldu sinnar til landsins. Faðir hans hefði verið Ungverji og afi sinn Grikki sem barðist fyrir Frakka í fyrri heimsstyrjöldinni. „Já, fjölskylda mín kemur annars staðar frá. En fjölskylda mín elskar Frakkland, Herra Le Pen, því við vitum hvað við skuldum þessu landi"

Le Pen var ekki seinn á sér að svara þessum orðum og kastaði olíu á eldinn þeirra í millum með því að staðhæfa að honum fyndist óhæft að bjóða sig fram í forsetaembætti lands þegar maður væri ekki hluti af þjóðinni.

Stjórnmálaskýrendur í Frakklandi segja að með þessu hafi Le Pen sýnt gamlar tennur sínar en hann á langan en afar umdeildan feril í frönskum stjórnmálum . Hann bauð sig fram fyrir forsetakosningarnar árið 1974, 1988 og 1995 en hlaut ekki náð fyrir augum kjósenda fyrr en árið 2002 þegar hann komst í aðra umferð forsetakosninganna ásamt Jaques Chirac,núverandi forseta landsins. Þau tíðindi þóttu álitshnekkir fyrir frönsk stjórnmál.

Nú ellefu dögum fyrir fyrstu umferð forsetakosninganna í Frakklandi er ljóst að spennan milli frambjóðenda stigmagnast og fúkyrðum fjölgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert