Google hjálpar Darfur

Myndir af vef Google Earth sem sýnir Darfur-hérað í Súdan
Myndir af vef Google Earth sem sýnir Darfur-hérað í Súdan Google Earth

Nú geta netnotendur séð með eigin augum á tölvuskjá sínum fjölda brenndra eða yfirgefinna þorpa í Darfur-héraði í Súdan. Leitarvélin Google hefur birt upphleypt kort af héraðinu á vef sínum þar sem tölvunotendur geta fylgst með þróun mála í héraðinu og séð hversu mörg þorp hafa verið brennd eða hvar íbúar hafa verið neyddir til að flýja.Þetta er hægt með því að sjá tölvugerða þrívíddarmynd af svæðinu,skoða ljósmyndir og myndskeið.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, Helfararsafnið, Amnesty International, Lækna án landamæra og önnur hjálparsamtök standa að verkefninu á Google Earth í samvinnu við fyrirtækið sjálft.

Tölvunotendur geta ýtt á "Global Awareness" möppu inni á vef Google Earth. Hvert einasta þorp þar sem íbúar hafa verið myrtir skipulega af andstæðingum sínum eða þvingaðir á flótta, er merkt með loga á landakortinu. Núna má sjá um 1.600 logandi bálkesti á kortinu. Yfir 200 milljónir manna nota prógrammið Google Earth og geta því þysjað inn á einstaka bæi og séð með eigin augum leifar brenndra húsa og yfirgefinna bæja. Með því að klikka á brenndan bæ, fær viðkomandi upplýsingar um fjölda flóttamanna, ljósmyndir af staðnum og vitnisburð íbúa.

Eyðileggingin, drápin og voðaverkin síðustu fjögur árin í Darfur-héraði í Súdan er af mörgum talin vera þjóðarmorð sem hafi algjörlega farið framhjá heimsbyggðinni. Tilgangurinn er að vekja athygli á stöðu mála í héraðinu en borgarastyrjöldinni í Súdan hefur verið lýst sem einni skelfilegustu martröð nútímans. Þrátt fyrir samkomulag milli stríðandi fylkinga í árslok 2005, er almennt talið að samkomulagið hafi mistekist og er áætlað að rúmlega 2 milljónir flóttamanna sé enn á vergangi og grunur leikur á um að enn viðgangist þjóðarmorð í Darfur-héraði. Alþjóðasamfélagið hefur verið gagnrýnt fyrir áhugaleysi á vanda íbúanna og að beita ekki stjórnvöld í Súdan nægjanlegum þrýstingi.

Til að sjá myndirnar þarf að hlaða niður forritinu og hægt er að gera það hér.

Google Earth

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert