Andstæðingar franska forsetaframbjóðandans Nicolas Sarkozy, sem leiðir í kosningabaráttunni samkvæmt skoðanakönnunum, hafa gagnrýnt hann harðlega fyrir ummæli sem hann lét falla um barnaníðinga.
Forsetaframbjóðandi sósíalista, Segolene Royal, segir þá skoðun Sarkozy að sumir einstaklingar „fæðist barnaníðingar“ vera grafalvarlegt mál.
Sarkozy, sem er fyrrverandi innanríkisráðherra Frakklands, leiðir miðhægri flokkinn UMP og þá þykir hann vera líklegur arftaki Jacques Chiracs sem næsti forseti Frakklands. Fyrri umferð forsetakosninganna fer fram þann 22. apríl nk. og sú síðari fer fram þann 6. maí.
Þá hefur Sarkozy einnig lent í útistöðum við hægri manninn Jean Marie Le Pen varðandi innflytjendamál, segir á vef BBC.
Miðjumaðurinn Francois Bayrou, sem er þriðji í kosningunum, á eftir Sarkozy og Royal, samkvæmt skoðanakönnunum, segir að ummæli Sarkozy um barnaníðinga séu „mikið áhyggjuefni“ og „hrollvekjandi“.
Sarkozy lét hafa eftir sér í viðtali við Philosophie tímaritið nú um helgina að hanni hallist að þeirri skoðun að „fólk fæðist sem barnaníðingar og það er einnig vandamál að við vitum ekki hvernig við eigum að meðhöndla þennan sjúkdóm.“