Úkraínuforseti kann að afturkalla ákvörðun um kosningar

Lögreglumenn fylgjast með stuðningsmönnum Viktors Jútsjénkós, forseta Úkraínu, í Kiev …
Lögreglumenn fylgjast með stuðningsmönnum Viktors Jútsjénkós, forseta Úkraínu, í Kiev í dag. Reuters

Aðstoðarmenn Viktors Jútsjénkós, forseta Úkraínu, segja að hann kunni að afturkalla tilskipun, sem hann gaf út fyrir páska um að rjúfa þing landsins og boða til nýrra kosninga í endaðan maí. Mikil spenna hefur ríkt í landinu undanfarið og hafa verið nánast daglegir útifundir í höfuðborginni Kiev, þar sem bæði fylgismenn og andstæðingar forsetans hafa safnast saman á sitthvoru torginu.

Viktor Janúkóvítsj, forsætisráðherra Úkraínu og helsti pólitíski andstæðingur forsetans, hefur haldið því fram að ákvörðun Jútsjénkós að rjúfa þing brjóti gegn stjórnarskrá landsins. Hefur málinu verið skotið til stjórnlagadómstóls Úkraínu en dómarar þar kvörtuðu í gær undan miklum pólitískum þrýstingi frá báðum deiluaðilum.

Einn af stuðningsmönnum forsetans sagði í dag, að Jútsjenkó útilokaði ekki, að tilskipun um þingrof og kosningar verði dregin til baka og að kosningar fari fram síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert