Danir vilja fá að reykja á veitingahúsum

Meirihluti Dana vill leyfa reykingar á krám og veitingahúsum samkvæmt …
Meirihluti Dana vill leyfa reykingar á krám og veitingahúsum samkvæmt nýrri skoðanakönnun Berlingske Tidende Mynd/AP

Sjö af hverjum tíu segjast ekki vilja banna reykingar á veitingahúsum í Danmörku samkvæmt skoðanakönnun dagblaðsins Berlingske Tidende sem birt var í morgun. Þann 15. ágúst næstkomandi verður bannað að reykja á opinberum stöðum í Danmörku nema í sérstöku reykingarými.

Tæplega 1200 manns tóku þátt í könnuninni og létu í ljós afstöðu sína til reykingalaganna sem eiga að taka gildi í ágúst. Meðal þess sem kom fram var að 71% aðspurða lýstu því yfir að mun betra sé að skola ísköldum bjór niður með sígarettu. Undir þessa skoðun taka kráar-og veitingahúsaeigendur í Danmörku,en rúmlega fimm hundruð vertar hafa mótmælt fyrirhugðu reykingabanni.

Niðurstöður könnunarinnar hafa þó ekki fengið stjórnmálamenn í Danmörku til að breyta um skoðun sína á lagafrumvarpinu sem þegar hefur farið í gegnum fyrstu umræðu danska þingsins. Flestir stjórnmálaflokkar búast við að nýju reykingalögin séu fyrsta skrefið í átt að allsherjar reykingabanni innandyra sem verði komið á þegar lögin verða endurskoðuð eftir þrjú ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert