Klósettferðir flugumferðarstjóra olli töluverðum töfum á flugi við innanlandsflugvöllinn Manchester í Boston í Bandaríkjunum á föstudaginn langa. Tvær vélar urðu að bíða lendingarleyfis í átján mínútur vegna þessa og sú þriðja, sem var með lungu til líffæragjafar, varð að bíða í tíu mínútur. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Tveir flugumferðarstjórar voru á vakt í flugturninum síðastliðinn föstudag en einungis annar þeirra hafði heimild til að hafa umsjón með flugtökum og lendingum. Flugvallaryfirvöld staðhæfa hins vegar að engar reglur hafi verið brotnar og að tafirnar hafi ekki skapað neina hættu.
Þá segir Jim Peters, talsmaður flugvallaryfirvalda, umrædda klósettferð alls ekki hafa verið óeðlilega langa. Sextíu flugvélar hafi farið um flugvöllinn síðustu þrjá klukkutímana fyrir klósettferðina og flugumferðarstjórinn hafi beðið með að bregða sér afsíðis þar til hægðist um. Þá hafi hann farið frá í tólf mínútur.