Dráttarbáturinn sem hvolfdi í námunda við olíuborpallinn Transocean Rather 75 sjómílur vestan við Hjaltland heitir Bourbon Dolphin og var tekinn í gagnið í september á síðasta ári. Tveimur mönnum hefur verið bjargað til viðbótar við þá átta sem tilkynnt var um í fyrstu en enn er fjögurra saknað. Skipið var gert út af norskri útgerð með norskri áhöfn.
Veður er gott og að sögn er sjórinn lygn. Óljóst er hvers vegna bátnum hvolfdi. Norska blaðið Aftenposten segir að mörg skip séu í nágrenninu ásamt þyrlum en nú telji björgunarmenn líklegt að mennirnir sem saknað er séu fastir í flakinu á hafsbotni og beðið er eftir köfurum til að fara niður og athuga málið.