Spænskir læknar og hjúkrunarfræðingar hættulegir í umferðinni

Segja má að læknar og hjúkrunarfræðingar bjargi mannslífum í vinnunni …
Segja má að læknar og hjúkrunarfræðingar bjargi mannslífum í vinnunni en þegar vinnudeginum er lokið skapi þeir stórhættu í umferðinni á Spáni. Reuters

Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru læknar og hjúkrunarfræðingar á Spáni afar hættulegur hópur í umferðinni þar í landi, en þeir eru gjarnir á að setjast ölvaðir undir stýri. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem var birt í vikunni.

Spánverjar eru nú þegar á meðal þeirra verstu í umferðinni í Evrópu hvað varðar að aka undir áhrifum áfengis. Rekja má á bilinu 30-50% dauðsfalla sem verða í umferðinni til áfengisneyslu ökumanna að því er segir í rannsókninni sem breska vísindaritið BMC Public Health birti í gær.

Á Írlandi má rekja um 40% dauðsfalla í umferðinni til drukkinna ökumanna og hlutfallið er um 14% í Bretlandi og Þýskalandi.

Í rannsókninni, sem byggir á viðtölum við yfir 16.000 háskólamenntaða einstaklinga, kemur fram að engin komist með tærnar þar sem spænskir læknar og hjúkrunarfræðingar hafa hælana hvað snerti ölvunarakstur.

„Það sem er sérstaklega mikið áhyggjuefni er sú staðreynd að sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda hafi greint frá þessu í miklu meiri mæli en aðrir,“ segir Maria Segui-Gomez, sem fór fyrir rannsókninni, en hún starfar sem farsóttafræðingur hjá háskólanum í Navarra og við John Hopkins-Háskólann í Bandaríkjunum.

Læknar af báðum kynjum og kvenkyns hjúkrunarfræðingar eru 20% líklegri að aka eftir að innbyrt áfengi en nokkur annar hópur háskólamenntaðra manna.

Karlkyns hjúkrunarfræðingar eru hinsvegar tvisvar sinnum líklegri til þess að aka undir áhrifum.

Tæpur helmingur þeirra sem tóku þátt í rannsókninni viðurkenndu að hafa sest undir stýri eftir að hafa drukkið áfengi. 30% sögðust gera það „stundum“. Þá er nokkur munur á milli kynjanna, en karlar er tvöfalt líklegri til þess að fá sér sjúss áður en þeir ræsa vélina.

Einn þriðji svarenda sögðust af og til detta ærlega í það.

Árið 2005 létust 127.000 manns í umferðinni og 2,4 milljónir manna slösuðust, samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert