Fáir þingmenn voru viðstaddir þegar þing Íraks kom saman til sérstaks fundar í dag. Í gær sprakk sprengja í þinghúsinu með þeim afleiðingum að átta manns létu lífið, þar af 2 þingmenn og 23 særðust. Svo virðist sem lífvörður þingmanns hafi staðið fyrir sprengingunni, sem varð í mötuneyti þingsins í lok hádegishlés og voru margir þingmenn og starfsmenn staddir í mötuneytinu.
Mahmud Mashhadani, forseti Íraksþings, hvatti þingmenn til að sýna styrk þrátt fyrir þessa atburði.
„Þessi fundur er skýr vísbending til allra hryðjuverkamanna og annarra, sem reyna að stöðva þessa blessuðu stjórnmálaþróun, sem við ættum allir að fórna okkur fyrir," sagði hann og hvatti nágrannaríkin til að veita Írökum lið í baráttunni við hryðjuverkamenn.
Öryggisráðstafanir á Græna svæðinu svonefnda í miðborg Bagdad, þar sem stjórnarbyggingar eru, hafa jafnan verið miklar en þær voru enn hertar í morgun. Tugir þingmanna áttu í erfiðleikum með að komast gegnum öryggisgæslu við þinghúsið.