Kasparov ákærður fyrir ólöglegar mótmælaaðgerðir

Lögreglumenn leiða Kasparov á brott í Moskvu í dag.
Lögreglumenn leiða Kasparov á brott í Moskvu í dag. AP

Garrí Kasparov, fyrrum heimsmeistari í skák og nú einn af leiðtogum rússnesku stjórnarandstöðunnar, var færður fyrir dómara í Moskvu í dag og ákærður fyrir ólöglegar mótmælaaðgerðir. Kasparov var handtekinn í dag þegar hann reyndi að leiða þátttakendur í mótmælaaðgerðum gegn rússneskum stjórnvöldum inn á Púskin-torg í Mosvku.

Kasparov er einn af leiðtogum Annars Rússlands, regnhlífarsamtaka stjórnarandstæðinga. Samtökin skipulögðu mótmælaaðgerðir í Moskvu í dag Vladímír Pútín Rússlandsforseta, en borgaryfirvöld vildu ekki leyfa mótmælaaðgerðirnar. Voru um 9000 lögreglumenn í viðbragðsstöðu í miðborginni í morgun.

„Hvað er að stjórnvöldum? Hafa þau misst vitið?" spurði Míkhaíl Kasjanov, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands og núverandi stjórnarandstæðingur, þegar vopnaðar sveitir meinuðu honum að fara inn á Púskin-torg.

Spenna fer vaxandi í Rússlandi þar sem forsetakosningar eiga að fara fram í mars á næsta ári. Að óbreyttri stjórnarskrá Rússlands getur Pútín ekki boðið sig fram aftur þar sem hann hefur setið tvö kjörtímabil í embætti.

Pútín nýtur mikilla vinsælda meðal almennings, m.a. vegna batnandi efnahagsástands í landinu, en andstæðingar forsetans segja að aðalástæða vinsældanna sé að fjölmiðlar séu flestir undir stjórn ríkisins og stjórnarandstæðingar hafi verið einangraðir.

Annað Rússland sagði að mótmælafundinum í dag væri ætlað að leggja áherslu á kröfur um breytingar gegnum kosningar. „En við viljum raunverulegar frjálsar kosningar, ekki eftirlíkingar," sagði Kasjanov.

Auðkýfingurinn Boris Berezovsky, sem er í útlegð í Lundúnum, lét hafa eftir sér í bresku blaði fyrir helgina, að hann væri að skipuleggja byltingu í Rússlandi. Rússnesk stjórnvöld kröfðust þess í kjölfarið að Bretar framseldu Berezovsky, sem nýtur pólitísks hælis í Bretlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert