Í það minnsta tuttugu og sjö manns létust og margra er saknað eftir flóð við Sairung og Prai fossana í Taílandi. Flóðið átti sér stað þegar margir voru á sundi í ánni því nú er löng fríhelgi vegna nýárs Búddista. Fossarnir eru í um 700 km fjarlægð frá höfuðborginni Bangkok.
Að sögn sjónarvotta gerðist þetta á örskömmum tíma. Fossarnir eru með um 5 km millibili og voru um 100 manns að synda í ánni eða á bökkum hennar.
Björgunarsveitir eru á staðnum og lögregla, her og sjálfboðaliðar leita nú að þeim sem saknað er og aðstoða þá sem lifðu flóðið af.
Að sögn voru flestir hinna látnu konur og börn, einnig eru margir ferðamenn slasaðir og bíða aðstoðar á steinum og trjám í ánni.
Mikið hefur rignt á svæðinu að undanförnu.