Bandarískir landgönguliðar brutu alþjóðleg lög með því að beita óhóflegu ofbeldi í kjölfar sjálfsmorðsárásar í Afganistan í byrjun mars, að því er kemur fram í skýrslu afgönsku mannréttindanefndarinnar. Landgönguliðarnir hófu skothríð og urðu að minnsta kosti 12 óbreyttum borgurum að bana, þar af bæði konum og börnum og særðu 35.
Niðurstaðan er í samræmi við rannsókn Bandaríkjahers sjálfs sem komst að þeirri niðurstöðu, að viðbrögð hermannanna hefðu verið óhófleg í ljósi þeirrar hættu sem var fyrir hendi.
Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC hófst skorhríðin þegar sjálfsmorðsárás var gerð á bandarískan herflokk og einnig var skotið á hann í Nangarhar héraði nálægt borginni Jalalabad. Afganska skýrslan segir, að ekkert hafi bent til þess að árásin væri umfangsmikil. Sjónarvottar, sem skýrsluhöfundar ræddu við, sögðu að landgönguliðarnir hefðu skotið tilviljanakennt á óbreytta borgara og ökutæki þeirra þegar þeir yfirgáfu svæðið.
Blaðamenn sögðu, að bandarískir hermenn hefðu eytt myndum, bæði myndskeiðum og ljósmyndum, sem sýndu svæðið eftir átökin.
Hermennirnir, sem voru undir stjórn NATO, voru fluttir frá Afganistan í kjölfar málsins.