Tveir gestir í Tívolí í Kaupmannahöfn meiddust þegar flugeldur sprakk í áhorfendaskaranum þegar hefðbundin flugeldasýning fór þar fram í gærkvöldi. Að sögn danskra fjölmiðla fékk kona flugeldinn í höfuðið og skoskur karlmaður brenndist á hendi.
Haft er eftir upplýsingafulltrúa Tívolí, að konan og maðurinn hafi ekki hlotið alvarleg meiðsl. Nú verði farið yfir hvað gerðist og hvort áhorfendur verði látnir standa á öðrum stað meðan á flugeldasýningum stendur eða hvort aðrar gerðir af flugeldum verði notaðar.
Slys af þessu tagi munu aldrei hafa orðið áður.