Myndband veldur hneyksli í þýska hernum

Myndband, sem tekið var á skothæfingu þýsks herflokks, og sýnt um helgina í þýsku sjónvarpi, sýnir liðþjálfa skipa hermanni að ímynda sér að hann sé staddur í Bronx hverfi í New York og sé að skjóta á blökkumenn. Þá segir liðþjálfinn hermanninum að bölva á meðan hann hleypir af.

Í myndbandinu heyrist liðþjálfinn segja við hermanninn: „Þú ert í Bronx, svartur bíll leggur fyrir framan þig og þrír afrískir Bandaríkjamenn stíga út og byrja að úthúða móður þinni... Gerðu eitthvað!"

Hermaðurinn hleypir þá nokkrum sinnum af og hrópar ókvæðisorð á ensku og liðþjálfinn hvetur hermanninn til að hrópa hærra.

Myndbandið var tekið í júlí 2006, nálægt herstöð í bænum Rendsburg. Þýski herinn hefur vitað af myndbandinu frá því í janúar og hefur verið að rannsaka málið.

Ýmis hneykslismál hafa komið upp í þýska hernum á undanförnum árum. Þannig eru 18 hermenn fyrir rétti ákærðir fyrir að hafa misþyrmt nýliðum í hernum meðan á þjálfun stóð. Þá birtu þýsk blöð myndir af þýskum hermönnum í Afganistan þar sem þeir voru að leika sér með hauskúpur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert