Hundruð manna hafa safnast saman í miðborg St. Pétursborgar í Rússlandi til að taka þátt í mótmælaaðgerðum gegn stjórnvöldum. Lögregla hefur þegar handtekið nokkra, þar á meðal leiðtoga ungmennasamtakanna Pora. Borgaryfirvöld hafa heimilað mótmælafund en bannað mótmælagöngur í borginni í dag.
Fréttamaður rússnesku útvarpsstöðvarinnar Echo, sagði að lögregla sé með mikinn viðbúnað og einnig séu sérsveitir innanríkisráðuneytisins í viðbragðsstöðu.
Í gær stöðvaði lögregla mótmælaaðgerðir í miðborg Moskvu og handtók um 170 manns, þar á meðal Garrí Kasparov, fyrrum heimsmeistara í skák. Kasparov, sem er einn af leiðtogum rússnesku stjórnarandstöðunnar, var síðdegis í gær dreginn fyrir rétt og sektaður um jafnvirði 3000 króna fyrir að valda uppnámi á almennafæri.