John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, gagnrýndi í dag það sem hann kallaði slæma „skotvopnamenningu“ í Bandaríkjunum, og benti á að ströng byssulöggjöf í Ástralíu væri rétta svarið. Eftir að vopnaður maður varð 35 manns að bana á Tasmaníu 1996 herti stjórn Howards skotvopnalöggjöfina í Ástralíu til mikilla muna.
Samkvæmt lögum eru nú svo að segja allar gerðir hálf-sjálfvirkra skotvopna bannaðar þar í landi, og stjórnvöld keyptu yfir hálfa milljón skotvopna af bændum, veiðimönnum og fleirum áður en hert lög tóku gildi.
Yfir 30.000 manns falla fyrir skotvopnum í Bandaríkjunum á ári hverju, og þar eru fleiri byssur í einkaeign en í nokkru öðru ríki í heiminum. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður á um réttinn til að bera vopn, og hagsmunasamtök skotvopnaeigenda eru mjög öflug í Bandaríkjunum. Almennur stuðningur við skotvopnaeign hefur komið í veg fyrir að reglur þar um séu hertar.