Rússneska öryggisþjónustan færði Garrí Kasparov, fyrrum heimsmeistara í skák, til yfirheyrslu í dag en hann er grunaður um að hafa opinberlega mælt fyrir öfgastefnu. Kasparov er nú einn af leiðtogum rússnesku stjórnarandstöðunnar, sem skipulagði mótmælaaðgerðir gegn stjórnvöldum um síðustu helgi.
Að sögn aðstoðarmanns Kasparovs vildu öryggisþjónustumenn rannsaka nánar viðtal, sem Kasparov veitt og fréttabréf, sem samtök hans gáfu út en þar hvatti hann Rússa til að taka þátt í mótmælaaðgerðunum.
Borgaryfirvöld í Moskvu veittu ekki leyfi fyrir mótmælaaðgerðunum á laugardag og komu lögregla og öryggissveitir í veg fyrir að fólk safnaðist saman. Um 200 manns voru handteknir, þar á meðal Kasparov. Mótmælafundur var heimilaður í St. Petursborg á sunnudag en lögregla kom í veg fyrir að mótmælendur gengju í átt að skrifstofum borgarstjórans.