Lög um skotvopnaeign í Virginíu ein þau vægustu í Bandaríkjunum

Það er tiltölulega auðvelt að kaupa skammbyssu eða riffil í Virginíu í Bandaríkjunum, en lög ríkisins um skotvopnaeign eru þó ekki þau vægustu í Bandaríkjunum, að því er fréttastofan AFP greinir frá. Allir Virginíubúar sem orðnir eru 18 ára mega kaupa skotvopn ef nöfn þeirra eru ekki á listum yfir skráða afbrotamenn.

Brady-samtökin, sem berjast fyrir hertum reglum um skotvopnaeign í Bandaríkjunum, gefa Virginíu einkunnina C mínus, á skalanum A til F, fyrir hversu öflug skotvopnalöggjöfin þar er. 32 af 50 ríkjum Bandaríkjanna fá D eða F í einkunn hjá samtökunum.

Til að kaupa og eiga byssu í Virginíu þarf ekki byssuleyfi, en án slíks leyfis er einungis heimilt að kaupa eina skammbyssu á mánuði, og ekki þarf að bíða neinn frest til að fá byssuna í hendur. Þeir sem hafa byssuleyfi geta keypt fleiri en eina skammbyssu á mánuði.

Sá sem ekki er íbúi í Virginíu getur keypt byssu í ríkinu, en verður að bíða 10 daga frest áður en hann fær vopnið afhent, eða þar til hann fær jákvæða umsögn frá lögreglunni í ríkinu.

Brady-samtökin benda á, að skotvopnalöggjöfin heimili hverjum sem er að kaupa árásarvopn og hleðslur í þau án nokkurra takmarkana, eins og til dæmis AK-47 og Uzi. Jafn auðvelt sé að kaupa árásarvopn og veiðiriffla.

Lögin banna að dæmdum glæpamönnum séu seld skotvopn, og ekki má selja eða gefa fólki undir 18 ára slík vopn, nema innan fjölskyldunnar. Þó er heimilt að selja börnum eldri en 12 ára riffla og haglabyssur.

Umdeilt er að hægt er að kaupa vopn á sýningum á notuðum skammbyssum án þess að kaupandinn þurfi að bíða frest eða kanna þurfi feril hans. Bent er á að með þessum hætti geti fólk keypt byssur, borgað í reiðufé og þá sé engin leið að hafa uppi á því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert