Múslímar í London hafa mikið traust á stjórnvöldum

AP

Múslímar í London hafa nærri því tvöfalt meira traust á stjórnvöldum en borgarbúar almennt, og hlutfallslega meira traust á lögreglunni og dómskerfinu, samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup sem birtar voru í dag. Einnig kom í ljós að múslímar í Bretlandi voru líklegri en breskur almenningur almennt til að fordæma ofbeldisverk.

Gallup mun birta niðurstöður könnunarinnar í heild á morgun, en þær upplýsingar sem þegar hafa birst benda til að fréttir fjölmiðla um að breskir múslímar séu almennt róttækir, útundan og njóti ekki fullra borgararéttinda séu út í bláinn.

Niðurstöðurnar benda til að hlutskipti breskra múslíma, sem eru alls tæplega 1,6 milljónir, sé mun betra. Könnunin er liður í víðtækari könnun á viðhorfum í 40 múslímaríkjum. Meðal annars var kannað hversu vel múslímar hafi aðlagast í löndum eins og Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Rétt rúmlega 607.000 múslímar búa í London, sem er 8,5% af íbúafjölda borgarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert