Skrif morðingjans í Virginíu höfðu valdið áhyggjum

Cho Seung-Hui.
Cho Seung-Hui. Reuters

Maðurinn, sem talinn er hafa skotið 32 til bana í háskóla í Virginíu í Bandaríkjunum áður en hann stytti sér aldur, hafði stundað nám í ensku í 4 ár við Virginia Tech háskólann. Maðurinn hét Cho Seung-Hui, 23 ára, og hafði búið í Bandaríkjunum í 15 ár en hann fæddist í Suður-Kóreu. Ekki er vitað hvers vegna hann framdi þessi ódæðisverk en að sögn bandarískra fjölmiðla höfðu ritgerðir hans valdið kennurum áhyggjum og var hann sendur til ráðgjafa vegna þeirra.

Þá segja fjölmiðlar, að Cho kunni að hafa tekið lyf vegna þunglyndis, að hann hafi verið erfiður í umgengni og skilið eftir sig bréf þar sem hann talar um ríka krakka, ólifnað og svikula trúða á heimavistinni.

Talsmaður skólans segir, að Cho hafi verið einfari og erfitt sé að fá um hann upplýsingar.

Cho fluttist til Bandaríkjanna árið 1992 frá Suður-Kóreu og ólst upp í úthverfi Washington. Hann bjó á heimavist Virginia Tech, þó ekki í sama húsi og hann hóf skotárásina í.

Blaðið Chicago Tribune hefur eftir nafngreindum heimildamönnum, að Cho hafi nýlega kveikt í herbergi á heimavistinni og setið um nokkrar konur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert