Erin Sheehan, verkfræðinemi á fyrsta ári í Virginia Tech háskóla í Blacksburg í Virginíu, lýsti því fyrir fréttamönnum í gærkvöldi hvernig ungur karlmaður kom inn í skólastofuna þar sem hún var í gær og hóf skothríð á þá sem þar voru inni. 25 manns voru í stofunni og aðeins 4 sluppu ómeiddir, þar á meðal Sheehan.
„Ég myndi segja að hann hafi verið rétt um 180 sentimetrar á hæð, unglegur og asískur í útliti, klæddur svolítið einkennilega, næstum eins og skáti, í ljósri skyrtu með afar stuttum ermum og í einskonar skotfæravesti," sagði hún við CNN sjónvarpsstöðina.
Sheehan sagði að árásarmaðurinn hefði verið með svarta skammbyssu og hann kom fyrst tvisvar í dyragættina á skólastofunni áður en hann lét til skarar skríða.
„Hann kom inn í stofuna, svo sem 1,5 metra frá dyrunum og byrjaði að skjóta. „Hann virtist gera það með skipulegum hætti og tókst að hitta næstum alla. Ég lá á gólfinu og reyndi að þykjast vera dáin. Hann fór út í um það bil 30 sekúndur, kom aftur inn og endurtók þetta allt. Ég býst við að hann hafi heyrt okkur tala," sagði hún.
„Við reyndum þá að loka hurðinni svo hann kæmist ekki inn aftur en hurðin lokaðist ekki. Hann kom aftur og reyndi þrisvar að komast inn og fór þá að skjóta gegnum dyrnar."
„Þegar hann fór loksins voru aðeins fjögur af okkur eftir. Aðrir voru annaðhvort dánir eða alvarlega særðir."