Blair segir þolinmæði alþjóðasamfélagsins gegn Súdan á þrotum

Tony Blair, forsætisráðherra Breta
Tony Blair, forsætisráðherra Breta Reuters

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir ástandið í Darfur-héraði í Súdan hryllilegt, óásættanlegt og algert hneyksli fyrir alþjóðasamfélagið. Þá segir hann að Bretar og Bandaríkin muni bera hugmyndir sínar um nýja ályktun þar sem kveðið er á um refsiaðgerðir gegn Súdan, undir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi ráðsins á morgun.

Blair greindi frá því í dag að í hugmyndum Breta og Bandaríkjanna sé m.a. gert ráð fyrir að gripið verði til aðgerða gegn einstaklingum sem komið hafi að ofbeldinu í Darfur með beinum hætti eða veitt einhvers konar heimild fyrir ofbeldisverkunum þar.

Þá sagði hann yfirvöld í Súdan geta stöðvað það ferli sem muni hefjast í öryggisráðinu á morgun hvenær sem er, með því að verða við kröfum alþjóðasamfélagsins og standa við þau fyrirheit sem þau hafi þegar gefið.

„Ég vona að skilaboð okkar komist með skýrum hætti til yfirvalda í Súdan í dag,” sagði hann. „Við höfum beðið og beðið. Við höfum hvað eftir annað reynt samningaumleitanir og viðræður við ríkisstjórn Súdans og hún verður að fara að skilja að alþjóðasamfélagið mun ekki lengur líða það hneyksli sem á sér stað í Darfur,” sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert