Þrír létu lífið og tveir eru alvarlega slasaðir eftir árás á skrifstofur bókaútgáfu í borginni Malatya í austurhluta Tyrklands í morgun en útgáfan sérhæfir sig í bókum um kristna trú. „Við þekkjum ekki smáatriðin en við höfum heyrt að árásarmennirnir hafi verið vopnaðir hnífum, segir Murat Cem Miman, aðstoðarmaður borgarstjóra borgarinnar.
Þá segir læknir á sjúkrahúsi borgarinnar að hinir slösuðu séu báðir í bráðri lífshættu. Annar þeirra mun hafa kastað sér út um glugga á þriðju hæð byggingarinnar en hinn var skorinn á háls.
Zirve útgáfufyrirtækinu höfðu áður borist hótanir vegna útgáfu sinnar á kristnum trúboðsritum.