Að minnsta kosti 170 manns létust í nokkrum sprengjuárásum sem voru gerðar í Bagdad, höfuðborg Íraks í dag. Um er að ræða mannskæðustu árásir í borginni frá því bandarískar hersveitir hófu að herða öryggi í borginni.
Í einni árásinni létust um 120 manns þegar bílsprengja sprakk á markaði í Sadriya-hverfi borgarinnar, að því er segir á fréttavef BBC.
Einn sjónarvottur sagði að svæðið hafi umbreyst í „blóði fyllta sundlaug“ eftir árásina.
Árásirnar eru gerðar á sama degi og Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sagði að íraskar hersveitir muni í lok þessa árs taka við öryggisgæslu í landinu úr höndum Bandaríkjamanna.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði árásirnar vera hræðilegan atburð. Hann sagði hinsvegar að uppreisnarmönnum í Írak muni ekki takast að setja núverandi öryggisaðgerðir í Bagdad út af sporinu.