Hundrað bátar selveiðimanna fastir í ísnum

Einn af bátum selveiðimanna sem er fastur í ísnum.
Einn af bátum selveiðimanna sem er fastur í ísnum. Reuters

Kanadíska strandgæslan vinnur nú að því að bjarga áhöfnum um eitt hundrað báta sem eru fastir í ísnum fyrir utan strendur Nýfundnalands. Margir bátanna eiga á hættu að brotna og sökkva í ísnum. Um borð í bátunum eru selveiðimenn.

Vindurinn blæs að sögn BBC ísnum í átt að landi og hefur lokað bátana inni. Frést hefur af einum bát sem hefur brotnað og annar hefur verið yfirgefinn. Hinir bátarnir eru í mikilli hættu og eru þeir einnig að verða uppiskroppa með mat og eldsneyti.

Veiðimennirnir segjast ekki hafa séð aðstæður sem þessar í meira en 20 ár. Talsmaður kanadíska sjávarútvegsráðuneytisins segir að búið sé að veiða upp í tvo þriðju af selveiðikvótanum sem er 270 þúsund selir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert